Vélin, Logo

félag véla-, iðnaðar- og efnaverkfræðinema

Lög

I. Heiti, heimili og hlutverk

1. grein
Félagið heitir Vélin, félag véla- og iðnaðarverkfræðinema. Heimili þess er VR II, Háskóla Íslands. Merki félagsins er
Vélin Logo
2. grein
Tilgangur félagsins er:
 1. Að gæta hagsmuna félagsmanna.
 2. Að stuðla að góðri menntun og aðstöðu félagsmanna.
 3. Að auka tengsl félagsmanna og viðhalda góðu félagslífi.
 4. Að stuðla að auknum tengslum félagsmanna við atvinnulífið.

II. Félagsmenn

3. grein
Félagsmenn eru þeir einir sem skráðir eru til náms við véla-, efna- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, og greitt hafa tilskilið árstillag. Félagsmenn hafa einir atkvæðisrétt á félags- og aðalfundum.
Stjórn félagsins ákveður árstillag félagsmanna. Skal innheimta árstillagsins fara fram að hausti í byrjun kennsluárs. Stjórn félagsins lætur útbúa félagsskírteini, sem afhenda skal hverjum félagsmanni, er hann hefur greitt árstillag sitt. Erlendir skiptinemar við véla-, efna- og iðnaðarverkfræði geta fengið félagsgjöld felld niður.
4. grein
Reikningsár félagsins er á milli aðalfunda. Reikningum félagsins skal lokað 4 dögum fyrir aðalfund og skilað til endurskoðenda félagsins tveimur sólarhringum fyrir aðalfund.

III. Aðalfundur

5. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins og er lögmætur er 2/5 hlutar félagsmanna sækja hann. Stjórn félagsins skal boða til aðalfundar með viku fyrirvara hið skemmsta. Til hans skal boða með áberandi auglýsingum á vefsíðu félagsins og með tölvupósti. Aðalfund skal halda að vori ár hvert.
Tillögur til lagabreytinga skal leggja fram og birta eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund, sbr. 2.ml. 8.gr.
Afl atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi, nema annars sé getið í lögum þessum. Stjórnin skal skipa fundastjóra eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund.
Fundastjóri skal annast framkvæmd og undirbúning stjórnarkjörs. Fundastjóri er ekki kjörgengur á aðalfundi félagsins og má ekki sitja í stjórn þess.
6. grein
Dagskrá aðalfundar skal vera:
 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Stjórnin leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
 3. Umræður um skýrslur og reikninga.
 4. Lagabreytingar.
 5. Kosning stjórnar fyrir næsta starfsár.
 6. Kosning varamanns í stjórn.
 7. Kosning fulltrúa í IAESTE nefnd - {tveir fulltrúar}.
 8. Kosning í hagsmunaráð - {tveir fulltrúar}.
 9. Kosning formanns undirbúiningsnefndar um Hönnunarkeppni félagsins.
 10. Kosning íþróttafulltrúa.
 11. Kosning endurskoðanda.
 12. Önnur mál.
 13. Hin nýkjörna stjórn tekur formlega við völdum.
Aðalfundur getur ákveðið að kosning skv. 6. - 11. tl. 1.mgr. 11.gr. fari fram á framhaldsaðalfundi, þó ekki síðar en að viku liðinni. Skal hann auglýstur með 2 daga fyrirvara.
7. grein
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Tillögum til lagabreytinga skal skila til stjórnar félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir aðalfund og þær auglýstar skv. 5.gr Nái tillaga til lagabreytinga samþykki 2/3 hluta fundarmanna, fær hún gildi. Tillögur til breytinga á lögum verða ekki teknar til meðferðar nema 2/5 félgsmanna hið fæsta sé viðstaddur.
8. grein
Nú hefur tillaga til lagabreytinga komið fram á réttum tíma, en ekki er mættur tilskilinn fjöldi félagsmanna skv. 7.gr, skal þá efna til framhaldsaðalfundar um tillöguna. Er sá fundur lögmætur og ályktunarfær um lagabreytinguna án tillits til fundarsóknar og fær tillagan gildi ef 2/3 fundarmanna samþykkja hana.
9. grein
Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi félagsins og til eins árs í senn. Stjórn félagsins skal skipuð fjórum mönnum sem kosnir eru í eftirfarandi röð, einn í senn:
 1. Formanni sem boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Hann skal hafa oddaatkvæði á stjórnarfundum. Formaður er jafnframt formaður hagsmunaráðs og skal vera fulltrúi félagsins í Félagi Verkfræðinema. Formaður er jafnframt fulltrúi nemenda í véla-, efna og iðnaðarverkfræði á deildar- og fræðasviðsfundum ásamt því að sitja í stjórn Náttverks.
 2. Gjaldkera sem sér um öll fjármál félagsins, og situr deildarráðsfundi hafi stúdentar rétt til fleiri en þriggja fulltrúa. Hann er jafnframt varaformaður Vélarinnar og gjaldkeri Félags verkfræðinema 3. hvert ár.
 3. Skemmtanastjóra sem skal auka tengsl félagsmanna með skoðunarferðum og öðrum viðburðum.
 4. Ritara sem skrifar fundagerðir og varðveitir þær og ber ábyrgð á allri útgáfu félagsins þ.m.t. vefsíðu félagsins.
Kosning skal vera leynileg. Aðeins þau atkvæði sem greidd eru á aðalfundi, eru gild í stjórnarkjöri.
10. grein
Ef frambjóðendur til formanns eru fleiri en tveir og enginn þeirra hlýtur meira en 50% atkvæða skal fara fram önnur umferð kosninga um formann. Þá skal aðeins kjósa á milli tveggja hæstu frambjóðendanna úr fyrri umferð og sigrar sá sem hlýtur fleiri atkvæði í þeirri seinni.
11. grein
Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi þess og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum.
12. grein
Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og með eins dags fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundur er ályktunarfær er þrír stjórnarmenn hið fæsta sækja fund og sitja. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.
13. grein
Stjórninni er skylt að efna til almenns fundar, ef 1/3 félagsmanna óskar þess skriflega. Fundir eru lögmætir er 2/5 hlutar félagsmanna sækja þá. Almennir fundir skulu auglýstir tryggilega og með eigi minna en tveggja daga fyrirvara.
14. grein
Nú kemur fram vantraust á stjórn félagsins, og skal það þá hljóta sömu meðferð og afgreiðslu og lagabreytingar hvað snertir birtingarfrest, auglýsingu og samþykki. Nái vantraust fram að ganga skal fundastjóri þess fundar boða til almenns félagsfundar innan tveggja vikna með tryggilegum hætti og a.m.k. viku fyrirvara. Skal þar kjósa bráðabirgðastjórn skv. almennum fundarsköpum, sem situr fram að næsta aðalfundi. Sömu reglur gilda ef stjórn félagsins segir af sér.

V. Hagsmunamál

15. grein
Varamaður skal vera fulltrúi Vélarinnar í árshátíðarnefnd FV.
16. grein
Aðalfundur kýs tvo fulltrúa í hagsmunaráð til eins árs í senn og skulu þeir hefja störf að vori. Þeir skulu vera nemendur á öðru og þriðja námsári, Maximus félag mastersnema tilnefnir einn fulltrúa. Formaður hagsmunaráðs skal vera formaður Félags véla-, efna- og iðnaðarverkfræðinema og hefur hann oddaatkvæði á fundum ráðsins. Hlutverk hagsmunaráðs er að gæta hagsmuna félagsmanna. Formaður Félags véla-, efna- og iðnaðarverkfræðinema situr jafnframt í námsnefnd. Námsnefndarfulltrúar eru jafnframt nemendaráðgjafar á deildarráðsfundum.
17. grein
Deildarfulltrúarskulu fara með málefni véla- og iðnaðarverkfræðinema á deildarfundum og gæta hagsmuna þeirra. Fulltrúar hagsmunaráðs, fulltrúi Maximus, hagsmunafulltrúi á þriðja námsári og formaður félagsins skulu vera fulltrúar stúdenta á deildarfundum. Varamenn þeirra skulu vera stjórnarmeðlimir, gjaldkeri sem fyrsti varamaður. Formaður félagsins skal vera fulltrúi stúdenta á deildar- og deildarráðsfundum. Varamaður hans skal vera fulltrúi hagsmunaráðs á þriðja námsári.
18. grein
Vélarsjóðinn skal eingöngu nota til fjármögnunar á tækjum og búnaði Vélarinnar. Umsókn skal berast deildarforseta iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild frá formanni félagsins. Umsókn skal tekinn upp á deildarráðsfundi.
Gjaldkeri Vélarinnar skal skila yfirliti yfir vélarsjóðinn til deildarforseta iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild í það minnsta tveimur dögum fyrir aðalfund til yfirferðar. Samþykkt yfirlit sjóðsins skal svo kynnt á aðalfundi fyrir félagsmönnum.

VI. Hönnunarkeppni

19. grein
Aðalfundur kýs formann undirbúningsnefndar um Hönnunarkeppni félagsins. Hann skipar einn fulltrúa í nefndina og formaður Vélarinnar skipar annan. Þessir þrír aðilar sjá um allan undibúning keppninnar í samstarfi við stjórn Vélarinnar.
20. grein
 1. Nafn keppninnar er Hönnunarkeppni Véla- og iðnaðarverkfræðinema.
 2. Kynna skal þrautina eigi síðar en 1. desember ár hvert og skal hún vera auglýst á netinu og með dreifingu veggspjalda.
 3. Keppnin skal vera haldin fyrsta föstudag í febrúarmánuði, sé því komið við.
 4. Óheimilt er að hafa auglýsingar á þeim hluta brautar sem farartæki ferðast yfir.
 5. Aðalstyrktaraðilar keppninnar skulu ekki vera fleiri en tveir, en öllum er heimilt að styrkja keppnina og/eða gefa verðlaun, með samþykki undirbúningsnefndar. Formaður dómnefndar mun þá afhenda verðlaunin.
 6. Aðalstyrktaraðilar keppninnar skulu ekki vera fleiri en tveir, en öllum er heimilt að styrkja keppnina og/eða gefa verðlaun, með samþykki undirbúningsnefndar. Formaður dómnefndar mun þá afhenda verðlaunin.

VII. Ýmis ákvæði

21. grein
Staða ljósmyndara Vélarinnar skal auglýst í byrjun hvers skólaárs. Stjórn Vélarinnar skal velja tvo ljósmyndara eigi síðar en tveimur vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Ljósmyndarar Vélarinnar skulu hafa yfirumsjón með ljósmyndun á atburðum félagsins.
22. grein
Upplýsingafulltrúi fyrsta árs nema skal kosinn á fyrsta félagsfundi í september. Hann skal vera tengiliður fyrsta árs nema við stjórn Félags véla- efna-og iðnaðarverkfræðinema.
23. grein
Íþróttafulltrúi skal kosinn á aðalfundi, sbr. 6.gr. 1.mgr. til eins árs í senn. Hlutverk hans er að hafa umsjón með íþróttalífi félagsins og sjá um tengsl þess við íþróttamót Háskóla Íslands.
24. grein
Aðalfundur kýs tvo IAESTE fulltrúa til eins árs í senn skv 6gr. 1.mgr. Skulu þeir ekki sitja á sama námsári.
25. grein
Félagið fer eftir almennum fundarsköpum.
26. grein
Nú kemur fram tillaga um að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga skv. 7. gr. sbr. 14.gr Ákvæði 8. gr. eiga ekki við um slíka tillögu.
27. grein
Sé félaginu slitið skulu eignir þess fengnar iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar til varðveislu, þar til véla- efna-og iðnaðarverkfræðinemar stofna annað félag, sem ótvírætt telst arftaki hins fyrra félags, og fær það þá eignirnar.
28. grein
Að loknum aðalfundi ár hvert skal stjórn félagsins gefa út gildandi lög þess og hafa þau aðgengileg öllum félagsmönnum.
29. grein
Staða vefstjóra Vélarinnar skal auglýst í byrjun hvers skólaárs. Stjórn Vélarinnar skal velja vefstjóra eigi síðar en tveimur vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Vefstjóri Vélarinnar skal hafa yfirumsjón með vefsíðu félagsins (velnem.hi.is).
30. grein
Þrír efstu Vísindamenn ársins, þ.e. þeir sem sækja flestar vísindaferðir og hafa minnstan skráningartíma, skulu vera verðlaunaðir á aðalfundi Vélarinnar ár hvert.
31. grein
Útnefna skal kvikmyndafulltrúa á haustönn. Kvikmyndafulltrúi Vélarinnar, í samvinnu við hin aðildarfélög FV sér um upptökur af félagslífi deildarinnar, og hefur yfirumsjón með árshátíðarmyndbandi á árshátíð Félags verkfræðinema. Kvikmyndafulltrúi skal sýna ábyrgð og heiðarleika í starfi sínu og bera virðingu fyrir samnemendum sínum.
32. grein
Í upphafi hvers skólaárs skal kosið í embætti söngstjóra. Söngstjórinn skal hafa yfirumsjón með eftirvísindaferðarútusöng og sjá um að dreifa reglulega söngbók til Vélmenna. Söngstjóra ber skylda til að mæta í allar vísindaferðir á vegum Vélarinnar, ellegar mun hann eiga á hættu brottvísun. Við fyrstu vísindaferðarómætingu skal áminna söngstjórann en við aðra vísindaferðarómætingu skal honum vikið úr starfi og embættið auglýst hið fyrsta.

Samþykkt á aðalfundi félagsins þann 1.apríl 2011